Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 498  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2006.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006 kemur nú til lokaafgreiðslu. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki séð ástæðu til að endurskoða frumvarpið eða gera á því breytingar eftir 2. umræðu þó svo að gögn og skýrslur hafi borist sem gefa ríkulegt tilefni að ákveðnir þættir, bæði í tekjum og gjöldum, væru endurskoðaðir. Má þar nefna nýja spá Seðlabankans um efnahagsþróun, bæði á þessu ári en þó sérstaklega á því næsta, sem víkur mjög frá áætlunum fjármálaráðuneytisins. Starfsemi og fjármögnun Byggðastofnunar er í uppnámi og byggðaáætlun fyrir næsta ár ekki komin fram. Ný skýrsla frá Ríkisendurskoðun um fjármögnun háskólanna sýnir fjárskort ríkisháskólanna allra en þó sérstaklega Háskólans á Akureyri sem settur er skör neðar en aðrir í fjárveitingum. Hvergi er tekið á fjárskorti elli- og hjúkrunarheimila þótt ný gögn sýni nákvæmlega hver sá skortur er. Ný skýrsla Stefáns Ólafssonar um stöðu öryrkja gæfi fjárlaganefnd einnig tilefni til að fara yfir þau mál. Þegar meiri hlutinn afgreiddi fjárlagafrumvarpið til 3. umræðu án þess að taka það inn í nefnd mótmælti 2. minni hluti því og sendi formanni nefndarinnar bréf þar sem óskað var eftir að frumvarpið kæmi inn í nefndina og fyrrgreind efnisatriði tekin fyrir. Þegar til kom reyndist það vera andstætt þingsköpum að taka fjárlagafrumvarpið ekki inn í nefnd eftir 2. umræðu. Var því haldinn fundur þar sem þeirri skyldu var fullnægt en engin efnisumræða fór fram. 2. minni hluti átelur þessi vinnubrögð meiri hluta fjárlaganefndar.
    Í frumvarpinu, með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umræðu, er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 315,1 milljarður kr. Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi í skýrslu í júní á þessu ári bent á að margir fjárlagaliðir safni stöðugt upp halla er ekki tekið á þeim vanda nema að litlu leyti í þessu fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði um 334,6 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er áætlaður um 20 milljarðar kr. en meðan ekki er tekið á uppsöfnuðum vanda fyrri ára í fjárlögum er ljóst að reyndin verður önnur í árslok. Á undanförnum árum hefur frávikið frá fjárlögum til raunniðurstöðu nálgast 20 milljarða kr. Vinstri hreyfingin – grænt framboð áréttar enn þá kröfu að vandað sé til fjárlagagerðarinnar og að raunverulegt rekstrarumfang komi fram í fjárlögunum og fái efnislega umræðu. Ríkisstjórnin læði ekki inn eftir á, í fjáraukalögum og lokafjárlögum, þeim rekstrarvanda sem þegar er fyrirliggjandi. Framkvæmdarvaldið hefur leyft sér að auka útgjöld án þess að fá fyrst heimild hjá Alþingi og þannig brotið 41. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Reglulegar upplýsingar um fjárhagsstöðu ráðuneyta og stofnana til fjárlaganefndar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að innan ársins verði fjárlaganefnd upplýst fyrr en nú er gert um stöðu allra fjárlagaliða, þannig að Alþingi geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. Jafnframt verði tryggt að framkvæmdarvaldið leggi fram beiðnir um aukafjárveitingar bæði að vori og hausti. Alþingi getur ekki, sem lykilstoðin í þrískiptingu valdsins, samþykkt að framkvæmdarvaldið gangi fram hjá Alþingi og fari á svig við lög með því að fara fram úr fjárheimildum án þess að sérstaklega sé tekið á því.

Efnahagslegar forsendur fjárlaga – efnahagsskrifstofa Alþingis.
    Í fyrra nefndaráliti með fjárlögum var farið yfir hversu efnahagslegar forsendur fjárlaganna hafa reynst veikar. M.a. var bent á að gert var ráð fyrir að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 en hún fór niður undir 100 og er nú um 106 og þótt áætlun fjármálaráðuneytis frá því í janúar gerði ráð fyrir rúmlega 100 milljarða kr. viðskiptahalla, þá er ljóst að hann verður vel yfir 130 milljarðar kr. á þessu ári. Samkvæmt nýjustu spám Seðlabankans er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði mun meiri á þessu ári eða um 15,5% af landsframleiðslu.
    Aðstæður fjárlaganefndar til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhlið frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum. Í ljósi þess hve erfitt hefur reynst að fá upplýsingar er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að styrkja stöðu þingsins og nefnda þess. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað lagt til á Alþingi stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins og verið þingmönnum og nefndum þingsins til ráðuneytis um mat og tillögugerð í þeim efnum.

Seðlabanki – fjármálaráðuneyti.
    Nokkur atriði sem sýna frávik frá spám sem fram koma í riti Seðlabanka Íslands nú í byrjun desember um peningamál í samanburði við rit fjármálaráðuneytis um spá og horfur sem fylgdi með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006:
          Seðlabankinn tekur sérstaklega fram að enn sé mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum.
          Áætlað er að viðskiptahallinn verði 15,6% af landsframleiðslu á árinu 2005 eða um 154 milljarðar kr. Seðlabankinn spáir að viðskiptahallinn verði 11,9% af landsframleiðslu 2006 eða um 132 milljarðar kr. Fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir að viðskiptahallinn yrði ekki nema 13,3%.
          Seðlabankinn spáir að einkaneysla verði 8 milljörðum kr. meiri en fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir á árinu 2005 og að breytingin á árinu 2006 verði 3,5% meiri en fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir. Það jafngildir um 20 milljörðum kr. meiri einkaneyslu á árinu 2006. Þessi frávik hafa veruleg áhrif á skatttekjur af veltusköttum á árinu 2006.
          Verðbólguspá fjármálaráðuneytis sem byggðist á þjóðhagsspá frá því í október gerði ráð fyrir tæplega 4% verðbólgu árin 2005 og 2006. Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir að verðbólgan verði um 3,5% á ári næstu tvö árin en tekur fram að mikil óvissa ríki, m.a. um þróun gengis.

Ruðningsáhrif stjóriðjustefnunnar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað bent á erfiða stöðu útflutningsgreina og ferðaþjónustunnar vegna allt of hás gengis krónunnar. Jafnframt blasir við að sívaxandi viðskiptahalli með tilheyrandi skuldasöfnun getur ekki gengið til lengdar. Á innan við ári hefur störfum í sjávarútvegi fækkað um fimm hundruð. Útflutnings- og samkeppnisiðnaður bregst við með því að leggja niður starfsemi og flytja hana úr landi. Talsmenn atvinnulífsins vítt og breitt um landið, sem og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, bentu ítrekað á þá hættu sem ruðningsáhrif stóriðjunnar mundu hafa á hagkerfið og aðrar atvinnugreinar í landinu, samþjöppun í stóriðjuframkvæmdum mundi stefna efnahagslegum stöðugleika í voða. Ruðningsáhrifin koma nú fram í erfiðleikum í sjávarútvegi. Þá hefur ríkisstjórnin, þvert ofan í viðvaranir hagfræðinga, ýtt undir þensluna með skattkerfisbreytingum sem koma langbest við þá efnameiri og auka þannig misskiptinguna í þjóðfélaginu.

Skattamál.
Skatttekjur ríkisins fjármagnaðar með lánum – óreglulegar skatttekjur.
    Á síðustu tveimur árum hefur allt efnahagskerfið tekið miklum breytingum. Bankarnir keppa nú við Íbúðalánasjóð um lánveitingar vegna húsnæðis og vaxtakjör hafa batnað verulega, þó að enn vanti upp á að Íslendingar njóti sambærilegra kjara og bjóðast annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi breytta staða hefur orðið til þess að verulegur hluti af einkaneyslunni hefur verið fjármagnaður með lánum. Því er rétt að fá það fram hjá fjármálaráðherra hversu mikið hann áætli að skatttekjur ríkisins minnki þegar einkaneyslan verður einungis borin uppi af raunverulegum tekjum. Nauðsynlegt er að fá þær upplýsingar til þess að hægt sé að meta hversu miklum tekjum af vöru og þjónustu sé hægt að gera ráð fyrir á komandi árum. Segja má að nokkrir milljarðar króna af veltisköttum áranna 2004 og 2005 hafi verið „óreglulegar skatttekjur“. Engu að síður var reksturinn nánast í járnum árið 2004 og áætlanir gera ekki ráð fyrir miklum afgangi fyrir árið 2005 ef hagnaður af sölu Símans er ekki talinn með. Tekjur ríkissjóðs eru nú í auknum mæli tilkomnar vegna skatta á viðskiptahallann, þ.e. innflutninginn. Þetta eru þensluskattar. En með því að lækka tekjuskattinn fyrst og fremst hjá hátekjufólki er fastur tekjugrunnur ríkissjóðs rýrður stórlega.

Breytingar á skattkerfinu – vaxandi misskipting.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst algerri andstöðu við þá vaxandi misskiptingu sem núverandi ríkisstjórn hefur stuðlað að. Gini-stuðullinn svonefndi hefur verið notaður til að bera saman launamun eða tekjuskiptingu. Því lægri sem stuðullinn er, því minni misskipting. Gini-stuðull hinna Norðurlandaþjóðanna er um 25 en Ísland hefur hækkað úr 21 í 31 frá árinu 1995 til 2003. Eftir síðustu skattkerfisbreytingu, sem samþykkt var á síðasta þingi, færumst við nú enn hraðar frá öðrum Norðurlandaþjóðum. Þessari stefnu vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð snúa við.

Tekjuskattar – skattleysismörk hafa ekki fylgt hækkun verðlags og launa.
    Þegar lög um breytingar á skattkerfinu voru samþykkt á síðasta þingi benti Vinstri hreyfingin – grænt framboð á að breytingar á tekjuskatti og eignarskatti kæmu langbest við þá efnameiri í þjóðfélaginu. Ef skattleysismörk hefðu fylgt þróun neysluvísitölunnar frá árinu 1988 væru skattleysismörkin ekki 75 þús. kr. heldur ríflega 100 þús. kr. og um 130 þús. kr. ef hækkunin hefði verið í samræmi við hækkun launavísitölunnar. Á árinu sem nú er að líða hækkar neysluvísitalan um ríflega 4% en persónuafslátturinn hækkar aðeins um 2,5% fyrir árið 2006. Ríkisstjórnin er því í raun alltaf að færa skattleysismörkin neðar. Þessi framkvæmd kemur þeim sem minnst mega sín verst en lækkunin á skattprósentunni kemur þeim best sem hafa hæstu tekjurnar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að það sé lágmarkskrafa að skattleysismörk fylgi almennum verðlagsbreytingum.

Breyting á skattkerfinu.
    Tekjumyndun í þjóðfélaginu hefur breyst gífurlega á síðustu árum. Sífellt fleiri Íslendingar hafa mjög háar tekjur af eignum sínum. Þær tekjur bera 10% skatt en skattprósentan á launatekjur er um 37%. Til þess að jafna skattlagninguna og gera hana réttlátari hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar hækki úr 10% í 18% eftir að 120 þús. kr. fjármagnstekjum er náð. Í fylgigögnum með frumvarpinu eru dæmi sem sýna að skattlagning fjármagnstekna er almennt lægri hér á landi en í flestum viðmiðunarlöndum okkar. Núverandi ríkisstjórn létti skattbyrðinni mest af stóreignamönnum þegar eignarskatturinn var afnuminn. 2. minni hluti leggur til að nú þegar stór hluti tekna í þjóðfélaginu skapast af eignum verði skattbyrði réttlátari með því að jafna betur skattana á milli tekna af launum og fjármagns- og arðgreiðslna.

Staða öryrkja, eldri borgara og þeirra sem lægst hafa launin.
    Í ljósi þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagsþróuninni hefur skattbyrðin á þá sem minnst mega sín hækkað verulega og ráðstöfunartekjurnar minnkað að sama skapi. Þessi staðreynd kemur vel fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar frá 1. desember 2005. Allt virðist leggjast á eitt með að gera samanburðinn við önnur ríki á Norðurlöndum óhagstæðan. Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka öryrkja minnkað úr 42% í 38,5%. Á árinu 2003 var starfsendurhæfing hér á landi rúm 4%, en um 20% í Danmörku og tæp 40% í Noregi. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar kemur fram að hlutfall tekna öryrkja miðað við aðra þjóðfélagshópa er mun lakara á Íslandi en hjá öðrum OECD-ríkjum. Miðað við stöðuna eins og hún var 1999 var hlutfallið í Danmörku um 86% og Noregi 79% en 65% á Íslandi. Áhrifin af breytingunum sem gerðar voru 2004 koma hlutfallinu á Íslandi aðeins í 67% það ár. Þegar tekjurnar og samfélagsþátttakan er vegin saman er Ísland í einu af neðstu sætum OECD-ríkjanna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að þessi staða er algerlega óviðunandi og gerir kröfu um að brugðist verði við þessum vanda nú þegar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlast til þess að stjórnvöld vinni samkvæmt lögum um málefni fatlaðra sem eru frá árinu 1992. Í 1. gr. þeirra laga segir „Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“
    Þrátt fyrir að íslenskt samfélag mælist nú með einna hæstar tekjur í heiminum á hvern íbúa, hefur núverandi ríkisstjórn ekki séð sóma sinn í því að sinna þeim sem minnst mega sín, heldur aukið misréttið með því að létta skattbyrðinni af þeim betur settu en þyngja hana hjá þeim sem minnst mega sín. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að þessari þróun verði að snúa við með því að bæta kjör öryrkja, aldraðra og þeirra launamanna sem verst hafa kjörin. Þar er sérstaklega bent á smánarleg kjör þeirra sem vinna að umönnun barna, sjúkra og eldri borgara. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að persónuafslátturinn verði hækkaður þannig að skattleysismörkin hækki í stað þeirra ívilnana og skattalækkana hjá hátekjufólki sem ríkisstjórnin keyrir nú í gegn. Það mun leiðrétta kjör öryrkja, aldraðra og þeirra sem verst eru settir. Til að mæta þessum útgjöldum að hluta er bent á að hækka skatt af fjármagns- og arðgreiðslum úr 10% í 18% eftir að 120 þús. kr. markinu er náð eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur þegar lagt til.

Elli- og hjúkrunarheimili.
    Þrátt fyrir þá miklu umræðu sem hefur verið um að bæta þurfi aðbúnað eldri borgara, þá er framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra ekki nægjanlegt til að standa undir rekstri sjóðsins miðað við núverandi rekstur. Uppsafnaður halli sjóðsins var 174 millj. kr. í árslok 2004 samkvæmt ríkisreikningi. Miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2006 þarf sjóðurinn að minnka umsvif sín verulega. Þá vekur það athygli að framlög til bygginga og viðhalds hjúkrunar- og öldrunarrýma lækka um rúmar 300 millj. kr. frá fjárlögum 2005.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð kallar eftir viðeigandi aðgerðum til að tryggja eldri borgurum þessa lands eðlilegan aðbúnað og umönnun á ævikvöldinu. Vísað er til meðfylgjandi bréfs frá fulltrúum öldrunarstofnana.
    Þá kemur fram í fjárlögum að hækkun á rekstrarframlagi er eingöngu til að standa undir fjölgun hjúkrunarrýma. Því er ljóst að ríkisstjórnin er ekki að taka á þeim uppsafnaða vanda sem nú blasir við hjá mörgum heilbrigðis- og sjúkrastofnunum í landinu. Ríkisstjórnin gerir því í raun kröfu til þess að þær stofnanir sem eru reknar með halla dragi úr þjónustu á árinu 2006. Framkvæmdarvaldið hefur ekki fylgt lögum og reglum um framkvæmd fjárlaga og enn á ný er ekki tekið á þessum vanda í fjárlögunum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur þessi vinnubrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks algerlega óviðunandi og ábyrgðarlaus. Að þessu leyti er myndin í fjárlögum ekki í samræmi við raunverulegan kostnað við þjónustuna. Ríkisendurskoðun bendir sérstaklega á þessi miklu frávik í greinargerð sinni um framkvæmd fjárlaga frá júní sl. Þar segir m.a.: „Mikilvægt er að Alþingi fylgist nákvæmlega með framkvæmd fjárlaga og taki ákveðið frumkvæði ef það metur stöðuna svo að framkvæmdarvaldið sinni ekki skyldum sínum með fullnægjandi hætti“.

Menntamál – dýrar lausnir einkaframkvæmda.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á jafnrétti til náms og að ekki megi þrengja svo að opinberum háskólum að þeir þurfi í meira mæli en nú að taka upp aðgangstakmarkanir. Ljóst er að sérstaklega þarf að taka á fjárhagsvanda Háskólans á Akureyri, sem m.a. stafar af því að skólinn var þvingaður inn í allt of dýrt húsnæði af þáverandi menntamálaráðherra án þess að fjárveitingar fylgdu. Hér er eitt skýrasta dæmið um áherslu núverandi ríkisstjórnar á einkaframkvæmdir. Gerðir eru langtímasamningar til að tryggja einkaaðilum góðar tekjur og ríkið situr uppi með allt of dýrt húsnæði. Kostnaðaraukningin fær ekki faglega umræðu við fjárlagagerðina. Það er ekki fyrr en nokkrum árum síðar, þegar Háskólinn á Akureyri er búinn að safna upp halla, að fjárveitingum verður lætt inn í fjáraukalög og lokafjárlög. Miðað við núverandi stöðu og fjárheimildir samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 bendir flest til þess að Háskólinn á Akureyri verði með um 300 millj. kr. halla á árinu 2006.
    Í fjárlagafrumvarpinu er ekki tekið á hallarekstri margra framhaldsskóla. Reiknilíkanið leysir ekki þennan vanda. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri leið sem menntamálaráðherra hefur boðað í styttingu á námi til stúdentsprófs og þeim fyrirætlunum að fella niður framlag ríkisins til tónlistarnáms í framhaldsskólum nú um næstu áramót. Vísað er til meðfylgjandi yfirlýsingar frá Félagi framhaldsskólakennara. Skipan tónlistarnáms er í uppnámi. Samningur sem gerður var milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun tónlistarnáms í framhaldsskólum rennur út um áramót og ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi þátttöku ríkisins á fjárlögum næsta árs. Einkavæðing Listdansskólans er dæmi um hvernig ríkisstjórnin lítur á nám í listgreinum, slíkt nám á að vera forréttindi hinna ríku sem geta greitt fyrir námið. Þá má og benda á það ráðstjórnaræði meiri hlutans að ráðstafa stuðningi til sjálfstæðra leikhúsa til Leikfélags Reykjavíkur til útdeilingar. Vissulega er eðlilegt að Alþingi styrki starfsemi leikfélagsins beint en það er sjálfstætt mál. Meðfylgjandi er greinargerð sjálfstæðu leikhúsanna um þetta mál.

Hlúð að barnafjölskyldum – gjaldfrjáls leikskóli í áföngum.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar auknum framlögum til barnabóta í frumvarpinu. Til lengri tíma litið er það eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að foreldrum séu sköpuð skilyrði til samveru með börnum sínum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft forustu í umræðunni um gjaldfrjálsan leikskóla og þingflokkurinn hefur í tillögu til þingsályktunar lagt til að unnið verði að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum. Slíkt jafnar aðstöðu barnafjölskyldna og gefur þeim aukið tekju- og fjölskyldulegt svigrúm. Til þess að þetta verði mögulegt er lagt til að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með sérstakri fjárveitingu til að hrinda í framkvæmd fyrsta áfanga áætlunar um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir alla. Nánar er gerð grein fyrir þessu máli í meðfylgjandi þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um gjaldfrjálsan leikskóla.

Ferðaþjónustan.
    Hátt gengi íslensku krónunnar kemur illa við ferðaþjónustuna. Nefna má að hækka hefur þurft dollarafjárhæðina um 43% frá árinu 2002 til þess að skila ferðaþjónustuaðilum sömu krónutölu. Þá er ekki tekið tillit til innlendra kostnaðarhækkana. Þessi ytri skilyrði hafa bæði leitt til þess að nú er farið að draga úr fjölgun ferðamanna og þeir eyða minna í afþreyingu. Á þessum tíma mikillar uppbyggingar í atvinnugreininni, sem nú býr við mjög erfið ytri skilyrði, dregur ríkisstjórnin úr framlögum til kynningar erlendis. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að stjórnvöld auki almennan stuðning við ferðaþjónustuna.

Að elska, virða og búa með náttúru landsins.
    Í nýjasta hefti Peningamála frá desember 2005 segir: „Mikið ójafnvægi einkennir núverandi ástand efnahagsmála þar sem saman fer metviðskiptahalli, raungengi í sögulegum hæðum, mikil hækkun íbúðarverðs, vaxandi skuldsetning heimila, fyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild sinni og verðbólga yfir markmiði Seðlabankans.“
    Samkeppnistaða útflutningsgreinanna, sjávarútvegs, fiskvinnslu, ferðaþjónustu, hátækniiðnaðarins og frumkvöðlastarfsins veikist stöðugt fyrir ruðningsáhrif stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. „Ruðningsáhrifin geta líka verið af hinu góða,“ var kveðja iðnaðaráðherra til Vestfirðinga í vor þegar þar var sagt upp fjölda manns og fiskvinnslum lokað. „Er verið að gera Ísland náttúrulaust?“ spyr hópur ungs fólks sem stendur að einni mestu tónlistarhátíð vetrarins í byrjun janúar á næsta ári, baráttutónleikum gegn áframhaldandi náttúrufórnum og álbræðslum. Fólk gerir sér æ betur grein fyrir að stóriðjustefnan skilar ekki aðeins afar litlum þjóðhagslegum ábata og krefst gríðarlegra óafturkræfra náttúrufórna heldur er hún einnig að leggja í rúst grunngerð íslensks atvinnulífs, búsetu og samfélagsmunstur. Nú blæs ungt fólk til sóknar gegn blindri áltrú þessarar ríkisstjórnar, græðgi og virðingarleysi fyrir náttúrunni og dýrustu perlum landsins. Við viljum ekki náttúrulaust Ísland.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands var sett út af fjárlögum á þessu ári. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að svo verði áfram og hefur hafnað beiðni Mannréttindaskrifstofu Íslands um fjárstuðning á árinu 2006. Þessu mótmælir Vinstri hreyfingin – grænt framboð harðlega. Það hefur sjaldan verið brýnna en nú að tryggja faglega og sjálfstæða umfjöllun um þessi mál. Mikilvægt er því að tryggja Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskólans sjálfstæðan starfsgrundvöll með fjárframlögum beint frá Alþingi. Stjórnarandstaðan flytur sameiginlega breytingartillögu sem miðar að því að treysta stöðu þeirra og sjálfstæði. Meðfylgjandi eru fylgiskjöl með áskorun frá ýmsum samtökum sem vinna að mannréttindamálum.

Lokaorð.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð getur ekki samþykkt þær áherslur sem fram koma í þessu fjárlagafrumvarpi. Frumvarpið er í samræmi við fyrri frumvörp þessarar ríkisstjórnar, þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim einstaklingum mest sem hafa mest fyrir. Staðreyndirnar tala sínu máli, sbr. nýja skýrslu Stefáns Ólafssonar um stöðu öryrkja.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þessum áherslum og vill að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna stjórnvaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar sem leitt hafa til stóraukinnar mismunar á lífskjörum fólks. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags er að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins mannsæmandi lífskjör.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að efla stofnanir á þessu sviði og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu.
    Lögð er áhersla á að auka fjárframlög til þjóðgarða og friðlýstra svæða og landvörslu. Vakin er athygli á að hvergi er ætlað fjármagn til náttúruverndaráætlunar, sem þó hefur verið samþykkt hér á Alþingi. Vísað er til álits 2. minni hluta umhverfisnefndar, frá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni.
    Leggja á meiri áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og tekið verði upp „grænt bókhald“ þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að fjölbreyttari atvinnustefnu en nú er. Stefna þeirra snýst nú alfarið um að byggja hér upp erlenda stóriðju. Því miður hafa viðvaranir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að ruðningsáhrif þessarar stefnu reynst rétt.

Alþingi, 5. des. 2005.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.

Þorsteinn Gunnarsson:

Bréf frá rektor Háskólans á Akureyri.
(5. desember 2005.)


    Vegna umræðna í fjölmiðlum um samanburð Ríkisendurskoðunar á tekjum íslenskra háskóla fyrir árin 2003 og 2004 vill Þorsteinn Gunnarsson, rektor, taka fram eftirfarandi:
    Samanburður Ríkisendurskoðunar byggist á sömu aðferðafræði og byggt var á þegar stofnunin bar saman í apríl 2005 fjárhagsumhverfi Háskóla Íslands við nokkra aðra evrópska háskóla. Á þeim tíma gerðu stjórnvöld ekki athugasemd við aðferðafræðina í þeim samanburði. Því má telja samanburð Ríkisendurskoðunar raunhæfa aðferð til að bera saman fjárhagsumhverfi íslenskra háskóla.
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar leiðir ótvírætt í ljós að tekjur og þar með kostnaður er lægri á hvern nemenda við Háskólann á Akureyri en við aðra háskóla í landinu. Þessa niðurstöðu ber að taka alvarlega, þennan mismun þarf að leiðrétta, ekki síst þar sem um er að ræða háskóla sem staðsettur er á landsbyggðinni, gegnir fjölþættu hlutverki og starfrækir kostnaðarsamar fræðigreinar.



Fylgiskjal II.

Toshiki Toma:

Áskorun frá presti innflytjenda.
(1. desember 2005. )


    Sem prestur innflytjenda undanfarin 7 ár hef ég unnið náið með Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) og met ég mikils starfsemi hennar. Starfsemi skrifstofunnar varðar oft réttindamál okkar útlendinga og fólks af erlendum en skrifstofan hefur unnið þarft og gott starf til að vernda réttindi okkar og vinna gegn mismunun.
    Starfsemi MRSÍ nær þó ekki aðeins til mannréttindamála hér innanlands heldur starfar skrifstofan einnig með öðrum mannréttindasamtökum á alþjóðlegum vettvangi. Alþjóðastarf skrifstofunnar er hluti framlags Íslendinga til alþjóðlegs mannréttindastarfs og ber virðingu íslensku þjóðarinnar fyrir lýðræði og mannréttindum raunverulegt vitni.
    Sú ákvörðun stjórnvalda að hætta beinum framlögum til skrifstofunnar árið 2004 hefur gert skrifstofunni afar erfitt um vik að sinna hlutverki sínu og hefur haft skaðleg áhrif á almenna þróun mannréttindaverndar hér á landi. Þetta harma ég því það er ekki aðeins Mannréttindaskrifstofa Íslands sem ber skaða af þessu breytta fyrirkomulagi heldur allir þegnar þjóðarinnar sem ekki geta treyst á að hér starfi öflug mannréttindastofnun sem vinnur að framgangi mannréttinda á heildstæðan hátt.
    Ég skora því á ykkur hæstvirtir þingmenn, að þið beitið ykkur fyrir því að bein fjárframlög verði tryggð til Mannréttindaskrifstofu Íslands á fjárlögum 2006.



Fylgiskjal III.


Áskorun frá Landssamtökunum Þroskahjálp.
(5. desember 2005.)


    Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands með föstum fjárveitingum á fjárlögum.
    Með tilkomu Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir félög og stofnanir sem starfa að mannréttindamálum og réttindabaráttu ýmissa hópa til að samhæfa krafta sína með velferð allra í huga. Flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi standa nú að Mannréttindaskrifstofunni. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar skipa fulltrúar allra félaga sem að henni standa. Mannréttindaskrifstofan hefur verið þeim sameiginlegur vettvangur mannréttindaumræðu og þannig styrkt félögin í afmörkuðum baráttumálum sem og í sameiginlegri hagsmunabaráttu.
    Á ellefu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt. Mannréttindaskrifstofan er mikilvægur umsagnaraðili um lagafrumvörp sem snerta mannréttindi og gegnir lykilhlutverki í samstarfi Íslands við mannréttindanefndir Sameinuðu þjóðanna.
    Landssamtökin Þroskahjálp telja að fjármagni til mannréttindamála sé best varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með sjálfstæði hennar, svo Mannréttindaskrifstofan megi áfram vera sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því alla þingmenn til að kynna sér fjölbreytt starf Mannréttindaskrifstofunnar og aðildarfélaga hennar og tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.



Fylgiskjal IV.


Áskorun frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi.
(1. desember 2005.)


    Stjórn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur alþingismenn, við afgreiðslu fjárlaga, til að tryggja fjármagn til rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands. Því miður ákvað meirihluti Alþingis fyrir um ári síðan að skerða fé til reksturins þrátt fyrir áhyggjur og ábendingar frá mörgum mannréttindasamtökum og stofnunum hér heima og erlendis.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið óháður umsagnaraðili og álitsgjafi ýmissa álitamála er snerta mannréttindi og hefur starf hennar verið óháð samtökum og stofnunum. Það hefur verið eitt af grundvallaratriðum í stefnu siðrænna húmanista um heim allan að hafa í heiðri mannréttindi eins og kveðið er á um í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu. Á Íslandi hefur Mannréttindaskrifstofan verið sá aðili sem verið hefur þar fremstur í flokki. Siðmennt hvetur því alþingismenn til þess að tryggja fé til rekstursins.



Fylgiskjal V.


Áskorun frá Hjálparstarfi kirkjunnar.
(1. desember 2005.)


    Hjálparstarf kirkjunnar hvetur Alþingi til að tryggja áfram rekstragrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Sjálfstæður rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggir að í landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Hjálparstarf kirkjunnar var meðal stofnaðila að Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem stofnuð var árið 1994. Aðrir sem að henni standa eru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Þjóðkirkjan, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði kross Íslands, Samtökin '78, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Háskólinn á Akureyri.
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila teljum við heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um. Þá er afar mikilvægt að rekstur skrifstofunnar sé tryggður til að starfsemin sé stöðug og skrifstofan fái notið krafta öflugs fagfólks.



Fylgiskjal VI.


Áskorun frá landsnefnd UNIFEM á Íslandi.
(1. desember 2005.)


    Landsnefnd UNIFEM á Íslandi skorar á háttvirta alþingismenn að tryggja öfluga starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands með því að gera hana að föstum lið á fjárlögum. Íslensk stjórnvöld hafa lengi hvatt til eflingar og verndunar mannréttinda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins auk þess sem framlög til þróunarsamvinnu og lýðræðisþróunar í öðrum ríkjum hafa verið aukin. Óháð og öflug Mannréttindaskrifstofa sem tekur þátt í alþjóðlegu mannréttindastarfi og eflir mannréttindavitund borgaranna og yfirvalda er nauðsynleg til að sinna fræðslu- og upplýsingaskyldu í flóknu nútímasamfélagi og veita yfirvöldum nauðsynlegt eftirlit. Möguleikar skrifstofunnar til að efla rannsóknir hérlendis og á alþjóðavettvangi eru ótalmargir. Sú óvissa sem ríkir um framtíð slíkrar stofnunar er óhugsandi í byrjun 21. aldar hjá einu elsta lýðræðisríki heims.



Fylgiskjal VII.


Áskorun frá Stígamótum.
(1. desember 2005.)


    Stígamót skora á Alþingi að tryggja Mannréttindaskrifstofu Íslands beint, fast framlag á fjárlögum til að tryggja áframhaldandi starfsemi hennar.
    Kynferðisofbeldi er versta mynd kynjamisréttis og alvarlegt mannréttindabrot. Stígamót hafa átt farsælt samstarf við Mannréttindaskrifstofu Íslands í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og það væri missir að skrifstofunni og jafnframt hneisa ef hún þyrfti að hætta starfsemi vegna fjárskorts.
    Stígamót telja mikilvægt fyrir alla mannréttindabaráttu að tryggt verði að hér á landi starfi áfram óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum. Stígamót skora því á hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að rekstargrundvöllur Mannréttindaskrifstofu Íslands verði tryggður.

Fylgiskjal VIII.


Skattbyrði af heildartekjum öryrkja hefur aukist verulega.
(Morgunblaðið, 2. desember 2005.)


    Skattbyrði af heildartekjum öryrkja hefur aukist verulega undanfarin ár. Árið 1995 var skattbyrði einhleypra öryrkja 7,4% af heildartekjum en árið 2004 var hún orðin 17,1%. Skattbyrði hjóna var árið 1995 12,1% en var 20% árið 2004. Þá var skattbyrði einstæðra foreldra neikvæð um 18,9% árið 1995 en árið 2001 var hún orðin neikvæð um 2,6%. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar dr. Stefáns Ólafssonar, prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, um örorku og velferð á Íslandi en niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í gær. Markmið rannsóknarinnar var að gera úttekt á stöðu og högum öryrkja í íslensku samfélagi í víðum skilningi og bera saman við stöðu sambærilegra þjóðfélagshópa í öðrum vestrænum ríkjum sagði Stefán þegar hann kynnti niðurstöðurnar á morgunverðarfundi Öryrkjabandalags Íslands í gær. Sagði Stefán þessa auknu skattbyrði hafa átt sér stað vegna þess að stjórnvöld minnkuðu skattfrjálsa hluta tekna með því að láta skattleysismörk ekki fylgja verðlagsþróun á árunum 1995–2004. Í skýrslu rannsóknarinnar segir: „Þessi gríðarlega aukning á skattbyrði tiltekinna þjóðfélagshópa er óvenjuleg … og ef til vill furðulegri fyrir þá sök að á þessum tíma hafa stjórnvöld haft þá stefnu að minnka skattheimtu.“ Hagstofa Íslands vann sérstaklega gögn fyrir rannsóknina upp úr skattframtölum einstaklinga á tímabilinu 1995–2004.

Atvinnuþátttaka öryrkja hefur minnkað.
    Á sama tímabili hefur atvinnuþátttaka öryrkja minnkað, sérstaklega hjá þeim öryrkjum sem eru einstæðir foreldrar eða einhleypir. Hér á landi er atvinnuþátttaka öryrkja 38% árið 1999 en samt sem áður er atvinnuþátttaka aldraðra, 55–64 ára, mest hérlendis miðað við atvinnuþátttöku í öðrum ríkjum OECD-landanna og sagði Stefán að þetta sanni hversu fáir öryrkjar eru í hópi aldraðra miðað við þessi lönd. Einnig skýrist þetta af því að hér á landi er almennt ekki fyrir hendi réttur til töku lífeyris fyrir 67 ára aldur, nema þá í örorkulífeyriskerfinu, en í flestum löndum Evrópu er snemmtekinn lífeyrir möguleiki. Atvinnuþátttaka öryrkja var mest hjá Svisslendingum og Norðmönnum árið 1999, um 60%, en Ísland er í 14. sæti af 22 OECD-ríkjum hvað atvinnuþátttöku öryrkja varðar. Segir Stefán allar þjóðir Evrópu vinna að því að hækka hlutfall öryrkja á vinnumarkaði en svo sé ekki á Íslandi.

Vitundarvakning um geðræna sjúkdóma.
    Þá sagði Stefán að vissulega fari öryrkjum á Íslandi fjölgandi en ákveðnir þættir skýri þá fjölgun. Sagði hann fjölgun öryrkja hafa hafist í stórum stíl í Evrópu og Norður-Ameríku eftir 1980, sumpart vegna þess að velferðarkerfin veittu betri þjónustu og hleyptu fleirum inn og sumpart vegna vaxandi atvinnuleysis og nýrra sjúkdóma, t.d. geðrænna sjúkdóma. Á Íslandi átti þessi fjölgun sér stað 10 árum seinna, eða eftir 1990. Ástæður fjölgunar öryrkja hérlendis sagði Stefán vera þá fólksfjölgun sem á sér stað á Íslandi og öryrkjum fjölgi í hlutfalli við það. Þá fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi og örorkulíkur eru hærri í eldri aldurshópum. Því sé eðlilegt að fjölgun öryrkja í eldri hópunum verði hraðari en fjölgun þjóðarinnar í heild. Sagði Stefán að niðurstöður rannsóknarinnar sýni að öryrkjum fjölgi ekki hratt í yngstu aldurshópunum eins og haldið hafi verið fram.
    Eins hafi orðið vakning vegna geðrænna sjúkdóma, en hátt í þriðjungur öryrkja þjáist af slíkum sjúkdómum. Sagði Stefán nú meiri meðvitund um geðræna sjúkdóma og réttindi þess fólks sem af þeim þjáist og það eigi ekki að vera lokað af og falið. Því leiti það í auknum mæli til velferðarkerfisins. Stefán sagði það mjög eðlilega þróun og eitthvað sem velferðarkerfið verði að svara. Í skýrslunni kemur fram að öryrkjum vegna geðrænna sjúkdóma hafi fjölgað mikið undanfarin ár, í hópi kvenna fjölgaði þeim úr 15% árið 1992 í 28,7% 2004 og í hópi karla fjölgaði þeim úr 17,8% árið 1992 í 37,8% 2004. Þá fækkar þeim sem verða öryrkjar vegna krabbameins.
    Þá sagði Stefán að fjölgun öryrkja hafi átt sér stað vegna veikingu skyldra forsjárkerfa, svo sem sjúkradagpeninga, atvinnuleysisbótakerfis og félagsþjónustu en í sumum löndum er örorku sinnt víðar í velferðarkerfinu en gert er hér á landi. Því sé örorkukerfinu hérlendis ætlað stærra hlutverk en í öðrum nágrannalöndum. Hátt á annan tug prósenta af öryrkjum eru á atvinnuleysisbótum í sumum Evrópulöndum sagði Stefán.
    Enn ein ástæða aukins fjölda öryrkja eru vísbendingar um aukið álag á vinnumarkaði og sagði Stefán að rannsóknir erlendis sýndu að álag á vinnustöðum hafi fórnarkostnað hvað heilsufar varðar.
    Þá hafi breytt örorkumat haft eitthvað að segja en tekinn var upp nýr staðall árið 1999. Sagði Stefán að það sem breyttist með honum hafi verið tilfærsla frá hlutaörorku yfir í fulla örorku. Sagði hann að enginn hefði sýnt gögn sem sýndu að það sé straumur af fullfrísku fólki í örorkumat á Íslandi.

Bætur dregist markvert aftur úr.
    Stefán notar ýmsa mælikvarða til að mæla hvernig lífeyrir og aðrar tekjur öryrkja hafa haldið í við þróun tekna á vinnumarkaði. Þegar þróun lágmarkslífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins er borin saman við þróun ráðstöfunartekna á mann og launavísitala kemur í ljós að þær lágmarkslífeyrisgreiðslur hafa ekki hækkað í takt við ráðstöfunartekjur og launavísitölu. Þegar hámarkslífeyrir einhleypra öryrkja er borinn saman við meðaltekjur allra framteljenda 16 ára og eldri hefur bilið einnig breikkað, árið 1993 voru hámarksbætur einhleypra öryrkja 52,2% af meðaltekjum allra framteljenda en árið 2001 var þetta hlutfall 41,3%. Árið 2004 var tekin upp aldurstengd uppbót fyrir 18–19 ára og þá er hámarkslífeyrir einhleypra öryrkja 53,7% af meðaltekjum allra framteljenda fyrir þann hóp en aðrir fá 44,7% af meðaltekjum framteljenda í landinu. Því hafi öryrkjar dregist markvert aftur úr, sagði Stefán. Þá eru heildartekjur einhleyps öryrkja rétt um helmingur heildartekna framteljenda á aldrinum 25–65 ára. Sagði Stefán að sú kenning Tryggva Þórs Herbertssonar að tekjur öryrkja væru hærri en laun á vinnumarkaði fengist ekki staðist að hans mati.
    Í samanburði við önnur OECD-ríki sagði Stefán hlutfall öryrkja á Íslandi 65% af meðaltekjum framteljenda en meðaltal OECD-ríkja var 78% árið 1999.

Byrði Íslendinga af örorkumálum lítil.
    Þá sagði Stefán útgjöld til örorkumála á Íslandi langt undir meðaltali annarra Norðurlanda. Þegar samanlögð útgjöld OECD-ríkja ársins 1998 til örorkulífeyris, slysatrygginga og sjúkradagpeninga, sem eru þeir þættir kerfisins sem liggja hvað næst örorkulífeyriskerfinu, eru skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu kemur í ljós að þau útgjöld eru 1,6% af vergri landsframleiðslu á Íslandi og er Ísland þar í 22. sæti af 29 ríkjum. Þau ríki sem vörðu hvað hæsta hlutfalli vergrar landsframleiðslu til þessa málaflokks eru Pólland (6%), Noregur (4,3%), Svíþjóð og Finnland (3,5%) og Sviss og Holland (3,4%).
    Því sagði Stefán að byrði Íslendinga af örorkumálum væri lítil, sem sé rökrétt niðurstaða miðað við það að öryrkjar séu ekki svo margir í landinu og kjör rýr.

Stefna vestrænna þjóða.
    Stefán sagði markmið laga frá 1992 hafa verið að tryggja fötluðum jafnréttindi og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi. Sagði hann að Íslendingar hefðu ef til vill fjarlægst þessi markmið því öryrkjar hafi augljóslega dregist aftur úr öðrum hópum þjóðfélagsins. Ástæðuna sagði hann vera þá að lífeyrir frá almannatryggingum hafi hækkað of lítið og aukin skattbyrði.
    Sagði Stefán meginstefnu vestrænna þjóða vera að tryggja öryrkjum viðunandi framfærslu til að taka þátt í venjulegu lífi samfélagsins og auka samfélagsþátttöku með vaxandi þunga á öllum sviðum. Þetta sé sú stefna sem ESB-löndin vinni eftir og jafnframt Sameinuðu þjóðirnar. Hvað samanburð við aðrar þjóðir varðar sýna niðurstöður mats OECD árið 2000 á framfærslukerfum OECD-ríkjanna að Ísland er fyrir neðan meðaltal í gæðum framfærslukerfisins, þar sem skoðaðir eru þættir eins og fyrirkomulag bóta, upphæðir bóta og aðferðir við mat á örorku þar sem litið er svo á að betra matið sé strangara og langt fyrir neðan meðaltal í gæðum samfélagsþátttökukerfisins, þ.e. þeim úrræðum sem lúta að því að greiða öryrkjum leið inn í atvinnulífið.

Fimm ára umbótaáætlun.
    Sagði Stefán að þessi málaflokkur öryrkja hefði ekki mætt nægum skilningi hér á landi og að ranghugmyndir væru um hann. Þá sagði hann að ekki hefði verið fylgst með því sem hefur verið að gerast á hinum Vesturlöndunum síðastliðin 10–15 árin. Að lokum kom hann með tillögur um fimm ára umbótaáætlun þar sem tekið yrði mið af grannríkjum okkar. Markmiðið yrði að ná frændþjóðum á Norðurlöndum hvað velferð og kjör öryrkja varðar. Þá vill hann aukið samráð við öryrkja í þessum málaflokki og stórauka samfélagsþátttöku þeirra.



Fylgiskjal IX.


Bréf til fjárlaganefndar frá Samtökum
fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH).

(2. desember 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






Fylgiskjal X.


Bréf til fjárlaganefndar frá Sjálfstæðu leikhúsunum.
(2. desember 2005.)


    Við í stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna (SL) fögnum 10 milljón króna aukningu á framlagi til starfsemi atvinnuleikhópa.
    Hins vegar kemur það okkur á óvart að búið sé að ráðstafa því fjármagni fyrirfram. Samkvæmt okkar upplýsingum sem fengnar eru af vef Alþingis, þá hljóðar tillaga fjárlaganefndar svona: „1.24. Starfsemi Atvinnuleikhópa. Gerð er tillaga um 10 m.kr. tímabundið framlag til Leikfélags Reykjavíkur vegna verkefna á vegum áhugaleikhópa.“
    Að okkar mati er skilyrðing þessara 10 milljóna viðbótar óskiljanleg og engin fordæmi fyrir því að fjárlaganefnd eða önnur stjórnvöld hafi mælt fyrir um það á hvern hátt beri að ráðstafa fjármunum af þessum fjárlagalið. Við teljum nauðsynlegt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við fjárlaganefnd til að varpa ljósi á það hvernig fjármunum af þessum fjárlagalið hefur verið ráðstafað fram að þessu, eftir því sem við best vitum án nokkurs ágreinings við stjórnvöld:
     *      Þeim fjármunum sem úthlutað er til sjálfstæðra leikhópa er úthlutað af Leiklistarráði sem skipað er samkvæmt leiklistarlögum frá 1998. Ráðið auglýsir eftir umsóknum frá hópunum og metur þær faglega útfrá reglum sem ráðið setur sér. Um þennan framgangsmáta hefur frá upphafi ríkt sátt milli menntamálaráðherra og ráðsins. Það hlýtur því að teljast undarlegt að fjárlaganefnd skuli nú grípa fram fyrir hendur Leiklistarráðs með því að úthluta fyrirfram hluta þeirra fjármuna sem ætlaðir eru starfsemi atvinnuleikhópa.
     *      Fjárlaganefnd virðist ætlast til að Leikfélag Reykjavíkur fái það framlag sem hér kemur til hækkunar á lið sjálfstæðu leikhópanna. Fjárlaganefnd áttar sig ekki á því að LR er ekki sjálfstæður leikhópur heldur sjálfseignarstofnun sem hefur tekið að sér rekstur Borgarleikhússins og fær rekstrarstyrk frá Reykjavíkurborg til þess.
     *      Leiklistarráð hafði á síðasta ári 47 milljónir til úthlutunar og hafði 17 milljónum af þeirri upphæð verið ráðstafað fyrirfram til Hafnafjarðarleikhússins samkvæmt þríhliða samningi leikhússins, Menntamálaráðuneytisins (Leiklistarráðs) og Hafnafjarðarbæjar. Það voru því eingöngu 30 milljónir til ráðstöfunar til annarra hópa. Nær 80 umsóknir bárust og var þeim úthlutað til 13 hópa . 10 milljón króna hækkun skiptir okkur því miklu máli til eflingar starfsemi SL en meðal uppsetningarkostnaður við hverja leiksýningu er um 12 milljónir.

    Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna hefur fundað með fjárlaganefnd á hverju ári til að minna á það mikilvæga starf sem unnið er á vegum atvinnuleikhópa og hafa framlög verið aukin á undanförnum árum. Fyrir það erum við þakklát og viljum líta svo á að fjárlaganefnd hafi ætlað með þessari 10 milljón króna hækkun fjárlagaliðarins, að koma til móts við þá öflugu starfsemi sem SL stendur fyrir . Við förum því fram á að skilyrðingunni sem fylgir tillögunni verði aflétt og það tryggt að þessi hækkun renni óskert til starfsemi SL og verði úthlutað eins og venja er til hópanna í gegnum Leiklistarráð.
    Undanfarin ár hefur verið mikil gróska hjá Sjálfstæðum leikhópunum og hefur heildaráhorfendafjöldi aðila SL verið um 170.000 manns á ári sem er álíka margir áhorfendur og Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið til samans. Þrátt fyrir þetta öfluga starf hafa einungis um 4% af heildarfjármunum sem veitt er til leiklistarstarfsemi í landinu farið til starfsemi SL.     Varðandi samstarf LR og SL viljum við koma eftirfarandi á framfæri:
     *      Flestar af vinsælustu sýningum í Borgarleikhúsinu síðastliðin ár hafa verið á vegum leikhópa innan SL, s.s.Alveg brilliant skilnaður og Kalli á þakinu sem enn ganga fyrir fullu húsi þessa dagana. Einnig má nefna sýningar eins og Kvetch sem hlaut Grímuna 2003 sem besta leiksýningin, Svik, Grease, Rómeó og Júlía, Með vífið í lúkunum og Forðist okkur. Af þeim 8 leiksýningum sem sýndar eru haustið 2005 í Borgarleikhúsinu eru 5 í samstarfi við SL en 3 á vegum LR. Það er því alveg ljóst að tekjur LR af starfsemi atvinnuleikhópa eru töluverðar.
    Það er óásættanlegt að þeir fjármunir sem ætlaðir eru starfsemi atvinnuleikhópa í umræddri tillögu fari í að greiða niður halla á rekstri Leikfélags Reykjavíkur.

Fyrir hönd SL.

Aino Freyja Järvala, formaður,
Hallur Helgason,
Ágústa Skúladóttir,
Hera Ólafsdóttir,
Elfar Logi Hannesson,
Krístín Eysteinsdóttir,
Gunnar I. Gunnsteinsson.




Fylgiskjal XI.


Ályktun stjórnar Félags framhaldsskólakennara um fjárveitingar
til framhaldsskóla og fjárhagsstöðu þeirra.


    Stjórn Félags framhaldsskólakennara hvetur Alþingi til að veita framhaldsskólum það fjármagn sem þeir þurfa til að tryggja jafnrétti til náms, kennslu við hæfi og fjölbreytt námsframboð fyrir þá sem þess óska.
    Í fjárlagafrumvarpi ársins 2006 eru fjárveitingar til framhaldsskóla enn á ný stórlega vanáætlaðar. Á sama tíma hafa stjórnvöld uppi áform um að stytta nám til stúdentsprófs. Þetta á sér stað um leið og æ fleiri sækja um inngöngu í framhaldsskóla. Ekki er hægt að skilja þessi áform öðruvísi en sem ásetning um að koma böndum á fjölda framhaldsskólanemenda til að spara í rekstri skólanna.
    Aðgerðir sem leiða til þess að sumir komast inn í framhaldsskóla en aðrir ekki eru rof á þeirri samfélagssátt sem ríkt hefur um áratugaskeið á Íslandi um menntakerfið og lykilhlutverk þess í jöfnun lífskjara.

Grófleg og árviss vanáætlun.
    Stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vanáætla gróflega og árvisst fjárveitingar til framhaldsskóla hvað varðar nemendafjölda og heildarfjárþörf. Stjórnin hefur á undanförnum árum ályktað um fjárveitingar til framhaldsskóla samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hverju sinni.
    Í fjárlagafrumvarpi árið 2003 var gert ráð fyrir að útgjöld til skólanna myndu aukast um 3% og um 4% á næstu árum vegna fjölmennari aldursárganga. Útgjaldarammi framhaldsskóla hefur hins vegar staðið í stað og aðeins hækkað árlega um liðlega 3%. Fjárveitingum til skólanna, samkvæmt gildandi fjárlögum hverju sinni, hefur auk þess verið „þjappað saman“ í reiknilíkani menntamálaráðuneytis sem þýðir enn frekari skerðingu á fjárheimildum.
    Haustið 2002 voru alls 17.512 nemendur skráðir í nám í dagskóla framhaldsskóla og fjölgaði þeim um 547 frá fyrra ári eða um 3.2%. Ef tekið er tillit til fjölda nemenda í kvöldskóla og fjarnámi var um mun meiri fjölgun að ræða.
    Í fjárlagafrumvarpi 2003 var reiknað með rúmlega 15 þúsund nemendum. Tölur sýna hins vegar að haustið 2003 voru rétt rúmlega 21 þúsund nemendur skráðir til náms í framhaldsskólum.
    Í fjárlagafrumvarpi 2003 voru fjárveitingar til framhaldsskóla ákvarðaðar samkvæmt endurskoðuðu reiknilíkani menntamálaráðuneytis. Markmið þess var að lagfæra fjárhagsvanda fjölmennra verknámsskóla og meðalstórra og fámennra skóla á landsbyggðinni. Aðferðin sem var farin til að auka fjárveitingar til þessara skóla fólst í því að lækka fjárveitingar til annarra skóla sem þó voru engan veginn aflögufærir. Breytingar á reiknilíkani skiluðu verknámsskólum að meðaltali um 2–7% hækkun framlags með hverjum nemanda en greiðslur með nemendum í bóknámi lækkuðu um u.þ.b. 2%. Í frumvarpinu 2003 var heildarfjárveiting til skólanna hvorki aukin sem nam kostnaði af breyttu reiknilíkani né heldur til að styrkja almennt starfsemi skóla og þjónustu þeirra við nemendur.
    Í fjárlagafrumvarpi 2004 var miðað við að nemendafjöldinn yrði 16.220. Í frumvarpið vantaði um 400 milljónir króna samkvæmt reiknilíkani að mati menntamálaráðuneytis til að mæta kostnaði við kennslu þess fjölda sem frumvarpið miðaðist þó við. Alþingi samþykkti viðbótarframlag upp á 600 milljónir vegna þessa. Um tveir þriðju hlutar þess fóru í það sem vantaði upp á til að kosta kennslu þeirra sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Með góðum vilja var því hægt að tala um 200 milljón króna viðbótarframlag. Fyrir þá fjárhæð mátti kenna um 400 nemendum til viðbótar. Mun hærra viðbótarframlag hefði þó þurft að koma til þegar þess er gætt að rúmlega 23 þúsund nemendur voru skráðir í framhaldsskólana haustið 2004 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Skemmst er einnig að minnast uppákomunnar sumarið 2004 þegar útlit var fyrir að fjölmargir nýnemar og eldri nemendur myndu ekki fá skólavist í framhaldsskólunum næsta skólaár.
    Útreikningar í frumvarpi 2005 byggðust á 18.200 nemendum og í frumvarpi 2006 er gert ráð fyrir að nemendur verði 18.900.
    Stjórnvöld hafa brugðist við þessari árlegu vanáætlun á nemendafjölda og heildarfjárþörf framhaldsskóla með því að sækja um viðbótarframlög í fjáraukalagafrumvörpum, sem hrökkva þó hvergi til.

Halli á rekstri framhaldsskóla 4–35%.
    Í greinargerð Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2004 er m.a. úttekt á fjárhagsstöðu nokkurra stofnana sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Þar í hópi eru níu framhaldsskólar. Uppsafnaður rekstrarhalli þessara skóla var samtals 480 m.kr. árið 2004 sem samsvarar næstum því framlaginu til eins fjölmenns framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fjárlögum ársins 2005. Halli þessara níu skóla nam allt frá 4–35% af fjárveitingum til þeirra árið 2005. Í þessum hópi eru meðalstórir og fámennir fjölbrauta- og bóknámsskólar, fjölmennir og fámennir verknámsskólar. Fimm af þessum níu skólum eru á landsbyggðinni og fjórir á höfuðborgarsvæði.
    Fjárhagsvandi flestra stafar af því að kostnaður við heimavist, skólahúsnæði og búnað er hærri en framlög samkvæmt reiknilíkani. Vandi meðalstórra og fámennra skóla á landsbyggðinni felst m.a. í því að þeir reyna að halda uppi fullnægjandi námsframboði en búa við nemendafækkun vegna byggðaröskunar. Fjölmennir verknámsskólar hafa vaxið hratt á undanförnum árum og tekið inn fleiri nemendur en framlög í reiknilíkani gera ráð fyrir. Meðalstóru fjölbrauta- og bóknámsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu í þessum hópi hafa reynt að mæta vaxandi eftirspurn eftir skólavist með því að taka inn fleiri nemendur. Vinsælir skólar fá fleiri umsóknir og velja inn hærra hlutfall nemenda með góðar einkunnir. Skólar í heimabyggð taka hlutfallslega fleiri slaka nemendur til náms. Þeir glíma því við meira brottfall og á samsetning nemendahópsins hjá mörgum þessara umræddu skóla sinn þátt í því að þeir koma ekki vel út í reiknilíkaninu.
    Vegna fjárhagsvandans hefur orðið samdráttur og beinn niðurskurður á námsframboði flestra þessara skóla, sérstaklega í starfs- og verknámi. Nemendum hefur verið fjölgað í námshópum í bóknámi sem verður ekki til að minnka brottfallið og ýmis konar þjónusta við nemendur hefur verið skert. Þannig hafa skólarnir hagrætt í rekstri sínum en uppsafnaður halli þeirra stendur óbreyttur og vandi þeirra sömuleiðis.

Mikil fjölgun nemenda.
    Áhugi á námi hefur aukist mjög á undanförnum árum sem lýsir sér í aukinni aðsókn í framhaldsskóla. Þessi aukna menntasókn er ekki eingöngu bundin við Ísland heldur er sams konar þróun í öðrum löndum. Talað er um menntunarsprenginguna síðari – sú fyrri átti sér stað um miðbik síðustu aldar.
    Haustið 2003 voru 21.008 nemendur skráðir í framhaldsskóla og hafði þeim fjölgað um 1.849 frá haustinu 2000. Þetta jafngildir 9.7% fjölgun á fjórum árum. Hlutfall 16 ára ungmenna af fjölda nemenda á fyrsta ári í framhaldsskóla fer hækkandi. Hlutfallið var 92% haustið 2003 og yfir 95% haustið 2005. Skólasókn hefur aukist að meðaltali hjá 16–19 ára ungmennum úr 74% haustið 2000 í 80% haustið 2003. Einnig hefur fjölgað verulega í hópi nemenda sem eru eldri en tvítugir. Því eldri sem nemendur eru því fleiri nýta sér kvöldskóla eða fjarnám. Tölur sýna næstum tvöföldun á fjölda nemenda í fjarnámi. Mörkin á milli dagskóla, kvöldskóla og fjarnáms eru orðin óskýr vegna þess að skólarnir hafa aðlagað þjónustu sína að fjölbreytilegum nemendahópi. Það sama gildir um mörkin á milli grunn- og endurmenntunar.
    Auk nemendafjölda er prófþátttaka nemenda veigamesta stærðin í reiknilíkaninu. Framlög skerðast ef færri nemendur fara í gegnum próf eða annað formlegt námsmat en hófu nám í upphafi. Tölur sýna að hlutfall prófaðra nemenda í framhaldsskólum hefur hækkað úr 78% árið 2000 í 83% árið 2003. Rúmlega þúsund fleiri nemendur fóru í gegnum próf eða annað formlegt námsmat frá árinu 2000 til 2003. Þessi hópur var reiknaður sem þriðjungur af nemendafjölgun framhaldsskólanna á þessum tíma. Hin grófa vanáætlun stjórnvalda á nemendafjölda framhaldsskóla kemur hér berlega í ljós.

Jafnrétti til náms.
    Í 15. gr. laga um framhaldsskóla segir „Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.“ Framhaldsskólar hafa fram til þessa verið fyrir alla sem þangað vilja sækja menntun og þroska. Um þetta hefur ríkt samstaða í samfélaginu áratugum saman. En ýmsar blikur eru á lofti í málefnum framhaldsskólans. Sífellt fleiri nemendur leita þangað, bæði nýnemar og eldri nemendur. Reiknilíkanið sem sníður skólunum alltof þröngan stakk, bæði hvað varðar nemendafjölda og fjárþarfir, gerir þeim erfitt fyrir að sinna því grundvallarhlutverki að mennta þá sem þangað vilja sækja. Ekki er vitað hversu margir eldri nemendur stóðu úti í kuldanum haustið 2004 en sl. haust voru þeir 119. Sá hópur samsvarar nemendafjölda í einum fámennum framhaldsskóla. Hversu margir komast ekki inn haustið 2006? Það hriktir í undirstöðum margra framhaldsskóla vegna erfiðs rekstrarumhverfis sem forsendur reiknilíkansins taka ekki tillit til. Af þessum sökum hefur námsframboð margra skóla orðið einhæfara. Hversu margir sækja ekki um skólavist vegna þess að þeir finna ekki nám við hæfi í sinni heimabyggð? Tölur Hagstofu Íslands um skólasókn 16–18 ára ungmenna haustið 2004 sýna mjög mismunandi skólasókn eftir landssvæðum, kynjum og árgöngum. Brottfall úr námi byrjar strax á öðru ári og eykst á þriðja ári framhaldsskólans. Ætla má að hlutfall þeirra sem ljúka ekki framhaldsskólanámi eða neinu formlegu námi sé rúmlega 40%. Í brottfallinu felst mikil sóun á mannauði og fjármunum. Upplýsingar úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fyrir árið 2002 leiða í ljós að 25% vinnuafls hefur grunnskólamenntun og 29% framhaldsskólamenntun.
    Við Íslendingum blasa enn mörg óleyst verkefni áður en menntunarstig þjóðarinnar stenst samjöfnuð við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Þar er tekið á móti hverjum nemanda sem æskir skólagöngu, sú er ekki raunin hérlendis.

Reykjavík, 5. desember 2005
F.h. Félags framhaldsskólakennara,
Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður.